Viðskipti erlent

Gífurlegar lækkanir á fasteignaverði í Bretlandi

Húsnæðisverð í Bretlandi lækkaði í maí um 2,5% frá fyrri mánuði. Þetta var því sjöundi mánuðurinn í röð þar sem húsnæðisverð lækkar í Bretlandi og er því á pari við fyrrum lengsta samfellda tímabil húsnæðisverðslækkana í upphaf tíunda áratugarins.

Greining Kaupþings fjallar um málið í Hálf fimm fréttum sínum. Þar segir að lækkunin í maí sé söguleg í ljósi þess að hún er sú mesta í sögu mælinga húsnæðisverðsvísitölunnar og meiri en nokkrar mælingar sýndu í fasteignakreppunni við upphaf tíunda áratugarins. Lækkun frá fyrra ári nam 4,4% sem er mesta lækkun á milli ára síðan í desember 1992.



Hrap húsnæðisverðs í maímánuði er áminning um það hversu hratt það getur lækkað. Húsnæðisverð í Bretlandi hefur nú lækkað um 7% frá hápunkti sínum árið 2007. Ef fram fer sem horfir, og spár greiningaraðila ganga eftir, munu þær lækkanir sem fram hafa komið aðeins vera upphafið á frekari lækkunum.

Spáð er að í árslok 2009 hafi verð á fasteignum lækkað allt að um fimmtung frá hæsta gildi. Það má því búast við álíka, ef ekki meira, falli húsnæðisverðs og var við samdráttinn við upphaf tíunda áratugarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×