Viðskipti innlent

Boðleiðir einfaldaðar hjá ríkisskattstjóra

Skúli Eggert Þórðarson
Skúli Eggert Þórðarson

„Þetta er þáttur í valddreifingu innan stofnunarinnar. Boðleiðir eru líka einfaldaðar og þær gerðar skýrari,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Nýtt skipurit tók gildi hjá embættinu í fyrra. Ný svið voru stofnuð: Skattasvið, stjórnsýsluvið og tækni- og skipulagssvið. Fjögur svið voru lögð niður á móti.

Þá hefur forstöðumönnum hjá embættinu verið fækkað, en deildarstjórum fjölgað á móti. Skúli Eggert segir það lið í því að færa ákvarðanatöku „eins nálægt akrinum og hægt er“.

Fram kemur í ársskýrslu ríkisskattstjóra að töluverð hagræðing hafi orðið hjá embættinu. Starfsfólki hafi fækkað, verkferlar og kostnaður hafi verið greind, utanlandsferðum fækkað, svo nokkuð sé nefnt. Enn fremur segir í skýrslunni að þrátt fyrir hagræðingu megi styrkja faglega þætti með því að breyta skipulagi.

Skúli Eggert nefnir samræmi í skattframkvæmd sem dæmi um nýjar áherslur. Þá skipti þjónusta embættisins ekki síður máli. „Það er til að mynda mjög óæskilegt að fólk þurfi að bíða, jafnvel árum saman, eftir því að erindi séu afgreidd. Lögboðna tímafresti verður að halda.“ Hann bendir enn fremur á að skatteftirlit þurfi að vera skilvirkt. Það sé ekki eingöngu í höndum ríkisskattstjóra, heldur skattstjóra víða um land.- ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×