Viðskipti innlent

Samson eignarhaldsfélag gjaldþrota

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásgeir Friðgeirsson
Ásgeir Friðgeirsson

Það var ekkert inni í félaginu til að mæta skuldbindingum þess, segir Ásgeir Friðgeirsson. Hann er talsmaður Björgólfsfeðga sem eiga Samson. Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði þeim í dag um áframhaldandi greiðslustöðvun. Ásgeir segir að níutíu prósent af eign Samson eignarhaldsfélagi hafi verið 90 milljarðar í Landsbankanum og þegar þeir voru teknir eignarnámi að þá hafi ekkert verið eftir.

„Voru einhvern tímann einhverjar líkur á öðru," segir Ásgeir þegar Vísir spyr hann hvort þetta flýti fyrir því að félagið verði tekið til gjaldþrotaskipta. „Það sem er núna að gerast er að nú er það í höndum kröfuhafa að óska eftir gjaldþroti," segir Ásgeir. Hann segir að kröfuhafar hafi ekki getað það hingað til vegna þess að félagið hafi verið í greiðslustöðvun en nú sé það hægt. Tíðindi dagsins breyti hins vegar engu um skuldastöðu félagsins eða afkomu.

Ekki er enn ljóst hvaða áhrif fall Samsons hefur á Eimskip. Eignarhaldsfélagið Grettir á stærstan hluta í Eimskip. Björgólfur Guðmundsson er eigandi Grettis. Hluti þess er skráður á Samson en Ásgeir segist ekki vera með tiltækar tölur um það hve mikill sá eignahlutur er nákvæmlega. Samson er jafnframt skráð fyrir tæpu prósenti í Eimskip.

Það var þýski bankinn Commerzbank sem fór fram á það við héraðsdóm að kröfu um áframhaldandi greiðslustöðvun yrði synjað. Líklegt er að Commerzbank fari nú þegar fram á að Samson verði tekið til gjaldþrotaskipta.














Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×