Viðskipti innlent

Baugur hlýtur útflutningsverðlaun forsetans

MYND/Vilhelm

Baugur Group hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands en þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu frá Útfutningsráði að Baugur hljóti verðlaunin fyrir forystuhlutverk sitt í íslensku útrásinni og þann einstaka árangur sem fyrirtækið hafi náð í sölu- og markaðsmálum í verslunarrekstri á heimsvísu. „Á örfáum árum hefur fyrirtækið náð þeim árangri að verða þriðja stærsta smásölufyrirtæki á Norðurlöndum og hefur á liðnum fimm árum vaxið hraðar en nokkuð annað fyrirtæki á þessum markaði," segir enn fremur í tilkynningunni.

Bent er á að Baugur eigi sér ekki langa sögu en útrás fyrirtæksins hafi hafist árið 1994 með opnun verslunar í Færeyjum. Í fyrirtækjum sem Baugur Group sé kjölfestufjárfestir í nú starfi um 70 þúsund manns í yfir 4.300 verslunum og nam velta fyrirtækjanna á síðasta rekstrarári um níu milljörðum punda, eða rúmum 1300 milljörðum íslenskra króna.

Björk fær heiðursviðurkenningu

Þetta er í 20. sinn sem útflutningsverðlaunin eru veitt og af því tilefni voru veittar heiðursviðurkenningar til þriggja einstaklinga. Þeir eru Einar Benediktsson, fyrrum sendiherra, dr. Rögnvaldur Ólafsson dósent og Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður.

Einar fær viðurkenninguna fyrir frumkvæði í opinberu starfi, sem eflt hefur íslensk útflutningsfyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum, Rögnvaldur fær viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf í vísindum og tækni sem eflt hefur íslenskan útflutningsiðnað og Björk fær viðurkenningu fyrir tónlist sem varpað hefur ljósi á land og þjóð og þannig greitt götu íslenskra fyrirtækja á heimsvísu,

Verðlaunagripurinn í ár er gerður af Huldu Hákon myndlistarmanni en merki Útflutningsverðlaunanna er eins og áður hannað af Hilmari Sigurðssyni. Listaverkið eftir Huldu heitir Svanir og er unnið í akrylliti á hydrocal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×