Viðskipti innlent

Verulegur bati á vöruskiptum við útlönd

Verulegur bati hefur orðið á vöruskiptum við útlönd það sem af er ári eftir mikinn vöruskiptahalla árin á undan. Ræður þar miklu stóraukin álframleiðsla, enda lætur nærri að nú séu framleidd 65 þúsund tonn áls hérlendis í mánuði hverjum, sem jafngildir u.þ.b. 780 þúsund tonna framleiðslugetu á ári.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að útlit sé fyrir að enn muni framleiðslan aukast á næstu árum. Með þeim álversframkvæmdum sem þegar eru hafnar í Helguvík og fyrirsjáanlegar eru í Straumsvík á næstu árum verður heildarframleiðslugeta álvera hér á landi orðin ríflega 970 þúsund tonn á ári í upphafi nýs áratugar, en til samanburðar voru framleidd hér á landi 446 þúsund tonn áls árið 2007.

Hinsvegar er á brattan að sækja fyrir sjávarútveg eftir niðurskurð á kvóta, þótt hátt heimsmarkaðsverð sé þar töluverð bót í máli. Ef lengra er horft fram á veg gerum við ráð fyrir að leyfilegur heildarafli muni aukast hægt og bítandi ár frá ári, þótt óvarlegt sé að gera ráð fyrir verulegum bata í þeim efnum.

Annar drifkraftur batnandi vöruskipta er samdrátturinn í innlendri eftirspurn sem þegar er hafinn og endurspeglast glögglega í verulegum samdrætti í innflutningi bíla, varanlegra neysluvara og fjárfestingarvara.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×