Viðskipti innlent

Hækkandi skuldatryggingarálag veldur gengissveiflu

Ein af ástæðnum fyrir hinni miklu gengissveiflu sem nú er í gangi er að skuldatryggingarálag bankanna hefur snarhækkað í þessum mánuði. Er hækkunin á bilinu 30% til 50% eftir bönkum.

Skuldatryggingarálag Landsbankans er komið í 380 púnkta en var komið niður í 170 púnkta fyrir mánaðarmótin síðustu. Skuldatryggingarálag Glitnis er 610 púnktar en var komið niður í rúmlega 400 púnkta og álagið hjá Kaupþing er 640 púnktar.

Ragnhildur Jónsdóttir hjá greiningu Glitnis segir að fleiri þættir spili inn í gengissveifluna en skuldatryggingarálagið. Hún nefnir sem dæmi að krónubréf fyrir 15 milljarða kr. gjaldfalli á morgun. Hér sé að vísu ekki um háa upphæð að ræða en á móti kemur að engin ný útgáfa af krónubréfum er í pípunum.

Einnig nefnir Ragnhildur að hin langa bið eftir því að ríkið nýti sér 500 milljarða króna lántökuheimild sína hafi áhrif á það að gengið lækkar svo mikið sem raun ber vitni. Lántökunni er ætlað að efla útgáfu á styttri flokkum ríkisskuldabréfa og/eða að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans.

Hér má að lokum nefna að gengið hefur verið styrkjast undanfarinn klukkutíma eftir að það féll nokkuð við opnun markaðarins í morgun. Viðskiptin hafa verið líflega, en ekki óeðlilega mikil. Um 17 milljarða kr. velta hefur verið á markaðinum í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×