Viðskipti innlent

Breytingar á íbúðalánasjóði hafa ekki áhrif á lækkandi fasteignaverð

Davíð Oddsson seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson seðlabankastjóri.

Nú þegar er komin fram 10 prósenta raunlækkun á íbúðaverði, að sögn Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að bankinn standi við spá sína um 30 prósenta raunlækkun fram til ársins 2010. Davíð segir að spáin, sem birtist í síðasta hefti Peningamála, hafi ef til vill verið full varfærin.

Davíð segir að breytingar sem hafi verið gerðar á Íbúðalánasjóði, sem fela meðal annars í sér að lánsfjárhæð verður bundin við kaupverð en ekki brunabótamat og að hámarkslán væru hækkuð úr 18 milljónir í 20 milljónir, hefðu ekki áhrif á þá spá í meginatriðum.

Í nýju riti Peningamála, sem kynnt var í dag samhliða tilkynningu um stýrivexti, er bent á að spáin hafi vakið hörð viðbrögð en hún gerði ráð fyrir að húsnæðisverð færi niður í áætlaða jafnvægisstöðu á næstu þremur árum.

„Gangi spáin eftir mun hækkun húsnæðisverðs umfram almennt verðlag undanfarin fimm ár ganga að mestu leyti til baka. Verð yrði þó ekki lágt í sögulegu samhengi og u.þ.b. í langtímajafnvægi sínu," segir Seðlabankinn.

Bent er á að Ísland sé ekki eyland í þessum efnum heldur hafi húsnæðisverð hækkað mikið víða á þessari öld og umfram verðlag. Tölur frá nágrannalöndunum bendi nú til að þar hafi húsnæðisverð tekið að lækka eins og hér á landi.


















Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×