Viðskipti innlent

EFTA í viðræður um fríverslun við Rússland

Á ráðherrafundi EFTA í dag lýstu ráðherrarnir því yfir að EFTA-ríkin væru reiðubúin til að hefja á seinni hluta næsta árs viðræður um fríverslunarsamning við Rússland.

Ákveðið var á fundinum að hefja fríverslunarviðræður við Úkraínu, Albaníu og Serbíu á næsta ári. Stefnt er að því að taka að nýju upp samningaviðræður við Taíland þegar aðstæður leyfa.

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra stýrði í dag ráðherrafundi EFTA í Genf í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Meginviðfangsefni fundarins var staða og stefna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna. Í tengslum við ráðherrafundinn var fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Kólumbíu undirritaður. Vonast er til að samningurinn geti tekið gildi á árinu 2009.

Ráðherrarnir lýstu ánægju með lok fríverslunarviðræðna við Perú og með upphaf viðræðna við Indland. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að styrkja viðskiptatengslin við Indverja. Þá lýstu ráðherrarnir áhuga á að hefja fríverslunarviðræður við Indónesíu og að auka samskiptin við Malasíu á sviði viðskipta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×