Viðskipti innlent

Sigurður undirbýr tilboð í Kaupþing í Lúxemborg

Fyrrum stjórnarformaður Kaupþings er meðal þeirra sem undirbúa nú tilboð í Kaupþing í Lúxemborg. Skilanefnd bankans hefur borist fjölda tilboða í dótturfélagið. Engin rannsókn hefur farið fram á starfsemi Kaupþings banka í Luxemborg.

Heimildir fréttastofu herma að tilboð frá Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, á að kaupa bankann sé í burðarliðnum. Muni þeir fara fyrir hópi erlendra fjárfesta, m.a. hinum þýska Landesbank. Nú þegar hefur skilanefnd Kaupþings borist fjölda tilboða í bankann, aðallega frá erlendum fjárfestum.

Kaupþing í Lúxemborg er dótturfélag móðurbankans hér á landi en lýtur lögum og reglum þar í landi. Mikil og sterk hefð er fyrir bankaleynd í Lúxemborg og hefur borgin verið nefnd sem hið fullkomna skjól fyrir fjármagnsflótta. Við fall bankanna var bankinn settur í greiðslustöðvun og er í dag á forræði fjármálaeftirlitsins þar í landi.

Heimildir fréttastofa herma að mikilvægar upplýsingar um fjármagnsflótta frá Íslandi séu að finna í íslensku bönkunum í Lúxemborg. Engin rannsókn hefur þá farið fram varðandi starfsemina í Lúxemborg en skilanefndirnar hafa eingöngu skoðað starfsemi móðurbankans hér á landi. Hin sterka bankaleynd í Lúxemborg kemur líka í veg fyrir að skilanefndirnar hafi greiðan aðgang að upplýsingum bankans.

Fjöldi tilboða hafa borist í eignir bankanna en samkvæmt heimildum fréttastofu er viðskiptaráðuneytið nú að mynda hóp til að hafa yfirumsjón með slíkum tilboðum. Þá hefur erlent fyrirtæki verið ráðið til að verðmeta nýju og gömlu bankanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×