Viðskipti innlent

Velta í júlí sú minnsta í Kauphöllinni í þrjú ár

MYND/GVA

Heildarvelta á innlendum hlutabréfamarkaði nam aðeins 51 milljarði króna allan júlímánuð, samkvæmt tölum Kauphallar Íslands.

Þetta þýðir að hún var einungis tíundi hluti þess sem hún var í sama mánuði í fyrra þegar úrvalsvísitalan fór í hæstu hæðir. Þá nam veltan alls 528 milljörðum króna. Fram kemur í hálffimmfréttum Kaupþings að þó beri að hafa í huga að júlímánuður í fyrra hafi verið óvenjulegur fyrir þær sakir að viðskipti vegna yfirtökunnar á Actavis gengu þá í gegn. Markaðsverðmæti félagsins var um 290 milljarðar króna.

Þá bendir greiningardeild Kaupþings á að veltan í sama mánuði fyrir tveimur árum hafi verið 57 milljarðar sem var langdaprasti mánuður þess árs. „Heildarveltan í nýliðnum júlí er þó alltént sú minnsta sem sést hefur síðan í maí árið 2005 eða í rúm þrjú ár," segir í hálffimmfréttum.

Markaðsverðmæti hlutabréfa minnkar um 2000 milljarða

Þegar horft er til fyrstu sjö mánaða ársins var hlutabréfaveltan rúmir 900 milljarðar en hún var tæpir 2000 milljarðar á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur því 54 prósentum og skýrir fyrrnefnd yfirtaka á Actavis hann að hluta til. „Minnkandi umsvif skýrast þó að stærstum hluta af þeirri verðmætarýrnun sem hefur orðið á hlutabréfamarkaði en þannig hafði markaðsverðmæti skráðra hlutabréfa í lok júlí fallið um tvö þúsund milljarða milli ára, úr 3.638 milljörðum í 1.562 milljarð," segir í hálffimmfréttum Kaupþings.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×