Viðskipti innlent

Segir Orkuveituna öflugt félag með sterkan fjárhag

Guðlaugur G. Sverrisson.
Guðlaugur G. Sverrisson. MYND/Arnþór

Nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur segir félagið öflugt og sterkt og fjárhag þess góðan þrátt fyrir gengisfall krónunnar á árinu. Ný stjórn kom saman til síns fyrsta fundar á föstudaginn var.

Að sögn Guðlaugs G. Sverrissonar, nýs stjórnarformanns Orkuveitunnar, voru svokölluð afgreiðslumál rædd á fundinum og munu hin stærri mál, eins og Bitruvirkjun og umræður um ráðningu nýs forstjóra, bíða næsta reglulega stjórnarfundar sem verður 19. september.

Guðlaugur var skipaður stjórnarformaður þegar nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við í borginni fyrir skemmstu. Hann segir eftir að hafa kynnt sér innviði fyrirtækisins að það líti vel út frá rekstrarlegu og stjórnunarlegu sjónarmiði. „Þetta er öflugt og sterkt fyrirtæki, fjárhagurinn er góður og starfsliðið frábært. Allt innra umhverfi er einnig í góðu lagi," segir Guðlaugur.

Orkuveitan var rekin með 16,4 milljarða króna tapi á fyrri helmingi ársins og er það fyrst og fremst rakið til óhagstæðrar gengisþróunar þar sem erlendar skuldir fyrirtækisins hafa hækkað. Guðlaugur bendir á að Orkuveitan hafi þó skilað hagnaði á öðrum ársfjórðungi. „Skuldastaðan er þyngri vegna framkvæmda en eiginfjárstaða fyrirtækisins er mjög sterkt," segir Guðlaugur enn fremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×