Viðskipti erlent

Fall Kaupþings truflar greiðslur fyrir úrvalsdeildarleikmenn

Singer & Friedlander (S&F) bankinn í London, dótturfélag Kaupþings, var umfangsmikill í viðskiptum með leikmenn í ensku úrvalsdeildinni. Eftir fall Kaupþings eru lán vegna margra leikmannakaupa í uppnámi enda stóð S&F að baki mörgum þeirra.

Í frétt um málið á Bloomberg-fréttaveitunni kemur fram að félagaskipti leikmanna í úrvalsdeildinni eru nú orðin svo flókin og upphæðirnar svo háar að greiðslum fyrir leikmenn er oft dreift á 3 til 5 ára tímabil eða þann tíma sem reiknað er með að viðkomandi leikmaður sé hjá hinu nýja félagi.

Klúbbarnir sem selja leikmenn geta hinsvegar fengið megnið af kaupverðinu greitt út í einu hjá bönkum sem fá síðan greiðsluna aftur í skömmtum á fyrrgreindum tíma með vöxtum.

S&F bankinn var umfangsmikill á þessum markaði en eftir að hann komst í þrot hefur Barclays tekið yfir megnið af viðskiptum S&F og annast nú þessi lánamál fyrir meirihlutann af klúbbunum í úrvalsdeildinni.

Chris Lee hjá íþróttadeild Barclaysn segir að viðskiptin séu meiri og líflegri nú en fyrir ári síðan.

"Þar sem Singer & Friedlander er ekki lengur til staðar og lánsfé liggur ekki á lausu hafa margir klúbbarnir leitað til okkar," segir Lee í samtali við Bloomberg.

Hinsvegar hafa nýjar reglur um starfsemi banka í Bretlandi gert það að verkum að þeir verða að eiga hærra hlutfall af eigin fé á móti lánum sínum. "Því er minna af fé í umferð og lánin eru orðin dýrari," segir Lee.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×