Viðskipti innlent

Nýherji lýkur kaupunum á TM Software

Nýherji hf. lauk í dag samningum um kaup á 59,4 prósenta hlut Straums í upplýsingatæknifyrirtækinu TM Software hf.  Nýherji hefur jafnframt tryggt sér kaup á bréfum FL Group hf. og Tryggingamiðstöðvarinnar hf.  og verður virkur eignarhlutur Nýherja í TM Software 77,9 prósent eftir kaupin.

Samanlögð velta fyrirtækjanna er 14 milljarðar króna. Heildarkaupverð hlutabréfa er 1.406 milljónir króna og allt að 65 milljónir nýrra hluta verða gefnir út á genginu 22. Til verður eitt öflugasta upplýsingatækni- og ráðgjafarfyrirtæki Norðurlanda. Nýherji styrkir jafnframt stöðu sína á sviði hýsingar og sérhæfðra hugbúnaðarlausna.

Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, segir eftirfarandi um kaupin á TM Software í tilkynningu um málið: ,,Með kaupum Nýherja á TM Software er stigið mikilvægt skref í að umbreyta félaginu í lausna- og þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni og ráðgjafar. Eftir kaupin má rekja yfir 50% tekna samstæðunnar til sölu á hugbúnaðarlausnum, ráðgjöf og þjónustu . Kaupin styrkja þjónustu okkar til muna m.a. á sviði rekstrar- og hýsingarþjónustu, veflausna og samþættingar á hugbúnaðarkerfum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×