Viðskipti innlent

Gætu fengið aðgang að samtölum Browns og Darlings

Gordon Brown og Alistair Darling eru ekki í hópi Íslandsvina þessi dægrin.
Gordon Brown og Alistair Darling eru ekki í hópi Íslandsvina þessi dægrin. MYND/AP

Svo gæti farið að lögmenn Kaupþings í Bretlandi fái aðgang að samtölum Gordons Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Alistairs Darlings, fjármálaráðherra landsins, fallist breskir dómstólar á að taka fyrir mál bankans á hendur breskum stjórnvöldum.

Eins og fram hefur komið hafa eigendur gamla Kaupþings falið lögfræðistofu í Bretlandi að kanna grundvöll þess að höfða mál á hendur bresku ríkisstjórninni vegna þeirrar ákvörðunar fyrr í mánuðinum að knýja dótturfélagið Singer og Friedlander í greiðslustöðvun. Í framhaldinu voru um 2,5 milljarðar punda, um 500 milljarðar íslenskra króna, fluttir frá bankanum til hollenska félagsins ING í því augnamiði að verja hagsmuni innistæðueigenda hjá Kaupþingi í Bretlandi.

Í frétt breska blaðsins Times af málinu er rætt við Richard Beresford, lögmann á lögfræðistofunni Grundberg Mocatta Rakison, sem vinnur fyrir Kaupþing. Hann fullyrðir að ákvörðun stjórnvalda að knýja Singer pg Friedlander í greiðslustöðvun hafi valdið því að móðurfélagið Kaupþing féll. Stjórnvöld hafi gert mistök með með því að setja alla íslensku bankana undir sama hatt en bresk stjónvöld höfðu áður fryst eignir Landsbankans í landinu.

Málshöfðun á næstu vikum?

Beresford telur að stjórnvöld hafi með þessum gjörningi gagnvart Kaupþingi brotið gegn sérstökum bankalögum sem sett voru fyrr á árinu til þess að heimila þjóðnýtingu á breska bankanum Northern Rock. Krafa Kaupþings gæti numið milljörðum punda, eða mörg hundruð milljörðum íslenskra króna.

Segir Times að ef mál Kaupþings verði tekið fyrir hjá dómstólum í Bretlandi sé líklegt að lögmenn bankans fari fram á aðgang að samtölum milli háttsettra embættismanna og ráðgjafa þeirra til þess að reyna að sýna fram að sú ákvörðun að knýja Singer og Friedlander í greiðslustöðvun hafi átt sér pólitískar rætur. Því sé mögulegt að samtöl Browns og Darlings dagana örlagaríku þegar íslensku bankarnir féllu verði afhjúpuð fyrir dómstólum.

Fram kemur að Kaupþing hafi þrjá mánuði til þess að fara fram á að dómstóll taki máli fyrir. Hins vegar er haft eftir Beresford að forrannsókn á málinu verði kláruð á næstu vikum og því verði mál hugsanlega höfðað fljótlega.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×