Viðskipti innlent

Vodafone tekur 35 nýja GSM senda í notkun

Vodafone er að taka 35 nýja GSM senda í notkun.
Vodafone er að taka 35 nýja GSM senda í notkun.

Fjórðungur þeirra GSM senda sem ráðgert er að tæknimenn Vodafone setji upp á árinu er nú þegar kominn í notkun. Alls hafa 35 nýir GSM sendar verið gangsettir um allt land og tryggt GSM samband á fjölmörgum svæðum sem ekki höfðu notið slíkrar þjónustu fyrr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„11 nýir GSM sendar voru gangsettir í byrjun vikunnar en aldrei hafa fleiri sendar verið gangsettir í einni og sömu vikunni. Flestir þessara senda eru á Vestfjörðum, t.d. í Súgandafirði, á Bolungarvík og Ísafirði en einnig voru nýir sendar gangsettir á Norðurlandi, t.d. á Siglufirði, Ólafsfirði og Skollahnjúk í S-Þingeyjarsýslu.

Meðfylgjandi myndir voru hins vegar teknar í Vestmannaeyjum, en þar voru settir upp tveir sendar sem tryggja GSM samband langt á haf út og styrkja sambandið í Eyjum. Þá var nýr sendir gangsettur í Flatey á Breiðafirði fyrir fáeinum dögum og annar á Klakki við Grundarfjörð. Sá síðarnefndi tryggir þjónustu m.a. í Kolgrafafirði og við Kvíabryggju sem hingað til hefur ekki verið í GSM sambandi.

Sams konar bylting hefur orðið á mörgum öðrum svæðum á landinu á þessu ári. Til dæmis er GSM samband nú komið á Kjöl og Sprengisand, þrír nýir sendar tryggja nú GSM samband í Fljótum - Siglfirðingum til mikillar ánægju, Gemlufallsheiði (milli Flateyrar og Þingeyrar) komst í GSM samband fyrir skemmstu þegar nýr sendir var gangsettur í grennd við Holt í Önundarfirði - og nýr langdrægur sendir á fjallinu Strúti tryggir GSM samband á Arnarvatnsheiði, vestanverðum Langjökli og í umlykjandi sveitum. Þá komst Hólasandur, norðan Mývatns, í GSM samband í fyrsta sinn á dögunum og áfram mætti telja.

Vodafone mun halda uppbyggingunni áfram út árið og á næstu vikum munu íbúar á völdum svæðum finna áþreifanlega breytingu. Uppsetning á langdrægum sendi á Bolafjalli við Bolungarvík er ráðgerð á næstu dögum en langdrægu sendarnir eiga að tryggja GSM samband í allt að 100 km á haf út, líkt og nýir sendar á Húsavíkurfjalli og Steinnýjastaðafjalla (ofan Skagastrandar) gera nú þegar.

Ofangreind uppbygging hefur nú þegar leitt til þess, að viðskiptavinir Vodafone geta notað GSM símann sinn á fleiri stöðum en aðrir. Rétt er þó að taka fram, að allir GSM notendur hringt neyðarsímtöl í 112 þar sem GSM þjónusta er á annað borð í boði. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×