Innlent

Geir hefur ekki séð skýrslu breskra sérfræðinga um bankakerfið

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir skýrslu breskra sérfræðinga, sem unnin var fyrir Landsbankan fyrr á þessu ári, ekki hafi verið lagða fyrir ríkisstjórn. Hann hafi vitað af skýrslunni en ekki lesið hana.

Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn á blaðamannafundi í Iðnó í dag. Fram hefur komið í fréttum að í umræddri skýrslu hafi verið bent á hættuna sem fylgdi íslenska bankakerfinu. Geir sagði margar skýrslur hafa verið unnar um íslenskt efnahagslíf og menn hafi flestir vitað að það væri hættumerki hér á landi vegna stærðar bankakerfisins. Menn hefðu talið að bankarnir hefðu svigrúm til að komast í gegnum erfiðleikana alveg fram til 15. september þegar Lehman Brothers bankinn hrundi. Enn fremur hefði verið lagt til fyrr á árinu að bankarnir minnkuðu stærð sína en þeim hefði ekki unnist tími til þess.

Geir var einnig spurður um það hvort trúnarðarbrestur hefði komið upp á milli hans og Tryggva Þórs Herbertssonar, efnahagsráðgafa ríkisstjórnarinnar, sem hætti í dag en Geir sagði engan trúnarðarbrest hafa orðið. Þetta hefði verið gert í mesta vinskap og honum hefði ekki verið vikið úr starfi.

Aðspurður um fregnir af því að hundruð milljóna væru týndar í kerfinu sagði Geir að hnökrar væru í kerfinu og þeir hefðu varað lengur en búist hefði verið við. Allir sem gætu væru að vinna að málinu, meðal annars sérfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Ekki á að leita að blórabögglum

Um þau ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra um að seðlabankastjórn ætti að víkja sagði Geir að hann teldi að það ætti ekki að persónugera viðfangsefnin í bankastjórn Seðlabankans. Við ættum í gríðarlegum erfiðleikum og ættum að vinna saman en ekki leita að blórabögglum.

Eftir að hafa svarað spurningum hélt Geir á landsleik Íslendinga og Makedóna á Laugardalsvelli sem hefst klukkan 18.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×