Viðskipti erlent

Válega horfir vogunarsjóðum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Valli

Útkoma vogunarsjóða eftir júlímánuð gæti orðið sú versta í fimm ár í kjölfar þess að spár um þróun hlutabréfamarkaðarins og hráolíuverðs reyndust byggðar á sandi. Vísitala Hedge Fund Research Inc. sem heldur utan um 55 vogunarsjóði lækkaði um 3,2 prósent frá júlíbyrjun og þar til á fimmtudaginn sem er mesta lækkunin á einum mánuði síðan mælingar hófust árið 2003.

Spár um lækkun hlutabréfa og byggingarvísitölu, sem alla jafna eru þeir flokkar sem hvað mest vægi hafa, brugðust þegar hlutabréf í Fannie Mae og Freddie Mac meira en tvöfölduðust í verði á sex dögum í júlí.

Þessi heiti kunna að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir enda eru þau gælunöfn á The Federal National Mortgage Association (Fannie) og Federal Home Mortgage Corporation (Freddie). Þá fóru allar hráolíuverðspár í vaskinn þegar verðið á tunnu lækkaði um 15 prósent úr rúmum 145 bandaríkjadölum sem þá var metverð.

„Hætt er við að allmargir sitji og sleiki sárin eftir að hafa gefið viðskiptavinum sínum skýrslu um júlímánuð," sagði Paul Meader hjá Corazon Capital Management, sem staðsett er á Channel-eyjum á Ermarsundi, og átti við verðbréfamiðlara um víðan vígvöll viðskiptalífsins.

Bloomberg greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×