Viðskipti innlent

SPRON borgar út úr Peningamarkaðssjóði

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON.

SPRON hefur lokið við yfirferð og útreikninga á eignum Peningamarkaðssjóðsins. Útgreiðsluhlutfall sjóðsins er 85,52% og miðast við lokagengi þann þriðja október að því er segir í tilkynningu frá sparisjóðnum. Um heildargreiðslu er að ræða og verður greitt úr sjóðnum þann 17. nóvember 2008.

„Útborgun úr sjóðnum verður lögð inn á innlánsreikning sem stofnaður hefur verið á nafni sjóðsfélaga," segir í tilkynningu SPRON. „Útborgunin svarar til eignarhlutfalls hvers sjóðfélaga í sjóðnum þann 3. október síðastliðinn. Allir sjóðsfélagar sem fá greitt úr Peningamarkaðssjóði SPRON bjóðast bestu kjör á nýjum innlánsreikningum til lok árs 2009. Nánari upplýsingar um útgreiðslu til sjóðsfélaga, innlánsreikninginn sem upphæðin verður lögð inn á og kjörin sem í boði eru verða send sjóðsfélögum í pósti."

Þá segir að SPRON harmi þá eignarýrnun sem orðið hafi. „Í kjölfar hruns viðskiptabankanna þriggja í byrjun október beindi Fjármálaeftirlitið þeim tilmælum til rekstrarfélaga verðbréfasjóða að peningamarkaðssjóðum yrði slitið og að ekki yrði opnað aftur fyrir innlausnir heldur yrði eign sjóðsfélaga greidd inn á innlánsreikning sjóðsfélaga. Sú ráðstöfun var gerð til þess að gæta jafnræðis milli sjóðsfélaga og með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. SPRON hefur unnið að því á síðustu vikum að hámarka verðmæti þeirra eigna sem voru í sjóðnum. SPRON harmar þá eignarýrnun sem orðið hefur og þau óþægindi sem þeir hafa orðið fyrir vegna lokunar sjóðsins." Þá segir að SPRON þakki viðskiptavinum ennfremur þolinmæðina sem þeir hafi sýnt starfsmönnum undanfarnar vikur.

Enn er lokað fyrir eftirtalda sjóði og verður tilkynnt um opnun þeirra síðar:

Langur skuldabréfasjóður

Stuttur skuldabréfasjóður

Íslenskur skuldabréfasjóður

Stýrður hlutabréfasjóður












Fleiri fréttir

Sjá meira


×