Viðskipti innlent

Vonast til að staða Íslands skýrist á ráðherrafundi í dag

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segist vonast til að hægt verði að skýra stöðu Íslands og hvaða ráð séu tiltæk í efnahagskreppunni þegar forsætisráðherrar Norðurlandanna koma saman til fundar í Finnlandi í dag.

Þetta hefur norska ríkisútvarpið eftir Geir í morgun. Enn fremur segir Geir að burtséð frá því ástandi sem nú ríki sé hagkerfi Íslands sterkt og góður grunnur til að byggja á þegar ástandið lagist eftir eitt eða tvö ár. Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, sem norska ríkisútvarpið ræddi einnig við, segir mikilvægt að Norðmenn veiti íslensku bönkunum þann stuðning sem mögulegt er.

Ísland sé lítið land en tengsl þess við norska hagkerfið séu þó mikilvæg. Stoltenberg segir að lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé mun betri lausn fyrir Íslendinga en að leita á náðir Rússa. Hann segir töluvert meira öryggi felast í því að sjóðurinn veiti lánið en að eitt landi standi að baki lánveitingunni. Íslendingar muni á næstunni finna fyrir tekjusamdrætti, auknu atvinnuleysi og stórauknum ríkisútgjöldum.

Norðurlöndin verði að standa saman og hafi norræn samvinna einhvern tímann verið mikilvæg sé það núna, segir norski forsætisráðherrann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×