Viðskipti innlent

SPRON og Kaupþing í viðræður

Óli Kristján Ármannsson skrifar
SPRON hringt inn í Kauphöll Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq/OMX Kauphallar Íslands, og Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, fagna hér skráningu sparisjóðsins í Kauphöllina í fyrrahaust.
SPRON hringt inn í Kauphöll Þórður Friðjónsson, forstjóri Nasdaq/OMX Kauphallar Íslands, og Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, fagna hér skráningu sparisjóðsins í Kauphöllina í fyrrahaust. Fréttablaðið/GVA
Kaupþing banki og Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) hafa ákveðið að taka upp viðræður um mögulega sameiningu félaganna. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands í gær er gert ráð fyrir fjórum vikum í viðræðurnar.

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, segir frumkvæðið alfarið hafa verið Kaupþings. „Þetta átti sér engan aðdraganda af okkar hálfu,“ segir hann, en stjórn barst í gær stutt bréf þar sem óskað var eftir viðræðunum. Væntingar til viðræðnanna eða niðurstöðu þeirra var ekki að finna í bréfinu.

Stjórn eða stjórnendur SPRON segir Guðmundur ekki hafa verið með vangaveltur um sameiningu við annað fjármálafyrirtæki og langt sé síðan slíkar vangaveltur hafi síðast verið uppi.

„Við þurfum að fara aftur til ársins 2003, þá voru viðræður milli þessara tveggja fyrirtækja, en þeim var hætt í ársbyrjun 2004 eftir að lögum hafði verið breytt. En nú hefur vitanlega markaðurinn og aðstæður breyst mikið og fjármagnsaðstæður þróast,“ bendir hann á og segir menn nú telja að ávinningur kunni að vera af því að taka þessar viðræður upp aftur.

„En þær eru ekki hafnar. Menn hafa samþykkt það eitt að setjast niður.“

Þó svo að lög um sparisjóði gildi um SPRON og takmarki meðal annars atkvæðavægi hluthafa segir Guðmundur það ekki trufla mögulegan samruna sjóðsins við annað félag. „Ef meirihluti hluthafa samþykkir á fundi að sameinast öðrum þá er það hægt,“ segir hann, en viðurkennir um leið að ef til vill væri í ljósi stærðarhlutfalla nær að tala um yfirtöku Kaupþings á sparisjóðnum.

„En hitt er annað mál að Kaupþing er fyrst og fremst stórt utan Íslands og á þessu svæði sem við störfum erum við með ágæta markaðshlutdeild. Mikil verðmæti eru því fólgin í SPRON, bæði starfsfólkinu og samskiptum þess við viðskiptavini sem eru rómuð. Ég gef mér því að menn séu fyrst og fremst að leita leiða til að auka verðmæti þess hlutafjár sem er í fyrirtækjunum. Þá hagsmuni, sem og hagsmuni starfsmanna og viðskiptamanna, hljótum við að þurfa að hafa að leiðarljósi í viðræðunum.“

Hver sem niðurstaða viðræðnanna verður er ljóst að sameining félaganna er háð samþykki hluthafafundar SPRON, stjórnar Kaupþings, Fjármálaeftirlitsins, Samkeppniseftirlitsins og lánveitenda félaganna, að því er áréttað er í kauphallartilkynningu um viðræðurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×