Viðskipti innlent

SÍS samþykkir að rannsaka Gift

Samvinnumenn úr kaupfélögum um allt land komu saman í gær. Þeir ætla að rannsaka hvað kom fyrir í Gift, þar sem milljarðar gufuðu upp.
Samvinnumenn úr kaupfélögum um allt land komu saman í gær. Þeir ætla að rannsaka hvað kom fyrir í Gift, þar sem milljarðar gufuðu upp. MYND/GVA

Aðalfundur Sambands íslenskra samvinnufélaga samþykkti í gær að láta óháða endurskoðunarmenn fara yfir hvað fór úrskeiðis hjá Gift. Fundarmenn voru mjög fúlir yfir örlögum Giftar.

Einnig var samþykkt ályktun um að rannsaka störf skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga og lögmæti þess að Eignarhaldsfélaginu var slitið á sínum tíma.

Guðsteinn Einarsson, stjórnarformaður SÍS, segir að framhaldið verði ákveðið þegar niðurstaða liggur fyrir.

Eignir Giftar hafa gufað upp í hruninu og nema skuldir umfram eignir mörgum milljörðum króna.

Félagið var stofnað úr Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum í fyrrasumar. Þeir sem tryggðu á tilteknu árabili áttu réttindi til hlutar í Gift.

Talið var að Samvinnusjóðurinn, sem er sjálfseignarstofnun utan um réttindi látinna tryggingataka og fleiri, yrði stærsti hluthafinn og ætti um eða yfir þriðjung. SÍS yrði næststærsti hluthafinn, en heimildir um hversu stór hlutur SÍS hefði orðið eru misvísandi. Sumir segja fimm prósent, aðrir sextán. SÍS átti fulltrúa í stjórn Giftar.

Yfir 50 þúsund manns sem eitt sinn tryggðu hjá Samvinnutryggingum áttu líka rétt á hlut í Gift. Þetta fólk fær nú ekkert. - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×