Viðskipti innlent

Hluthafar í SPRON kjósa um samruna við Kaupþing

Mikill fjöldi manns er nú samann kominn á Hilton-hótelinu við Suðurlandsbraut þar sem fram fer hluthafafundur SPRON. Þar á að taka fyrir tillögu um sameiningu við Kaupþing.

Stjórnir félaganna samþykktu fyrr í sumar samrunaáætlun um að Kaupþing yfirtaki eignir og skuldir SPRON. Samruninn er háður samþykki hluthafafundar SPRON en hluthafar hafa í fjölmiðlum að undanförnu lýst efasemdum um samrunann og það endurgjald sem þeir fá fyrir hlut sinn í SPRON.

Verði samruninn samþykktur á fundinum nú hefur enn einni hindruninni verið rutt úr vegi en bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið eiga eftir að leggja blessun sína yfir samrunann.

Tæplega 2800 hluthafar eru í SPRON. Fundurinn nú fer þannig fram að fyrst verður haldin framsaga þar sem Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, kynnir samrunann. Reiknað er með að kynningin taki um klukkustund. Í framhaldinu verða umræður og að þeim loknum verða atkvæði greidd um samrunann. Ekki liggur yfir hvenær úrslit talningarinnar líta dagsins ljós.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×