Viðskipti erlent

Morten Lund kærður til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar

Morten Lund aðaleigandi Nyhedsavisen hefur verið kærður til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Það er Per Clausen þingmaður Enhedslisten á danska þinginu sem leggur kæruna fram.

Kæruna byggir Clausen á fréttum í dönskum fjölmiðlum um að Morten Lund og David Montgomery, eigandi Berlinske Tidende í gegnum Mecom, hafi gert með sér samkomulag um að Lund myndi leggja niður útgáfu Nyhedsavisen gegn greiðslu.

Bæði Lund og Montgomery hafa alfarið neitað því að slíkt samkomulag hafi verið gert. Hinsvegar segir Lund á bloggsíðu sinni lundxy.com að hann hafi gert það að tillögu sinni, í samráði við Baug, að útgáfa Nyhedsavisen yrði lögð niður og að í staðinn fengi hann ráðgjafarstöðu hjá Mecom í London.

Í kæru Clausen segir m.a. að svo virðist sem Mecom hafi borgað Lund yfir 100 milljónir dkr. fyrir að leggja útgáfu Nyhedsavisen niður. Að hans mati er slíkt samkomulag ólöglegt og að upphæðina hefði átt að borga til útgáfunnar sjálfrar svo hún kæmi kröfuhöfum í þrotabú Nyhedsavisen til góða.

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×