Viðskipti innlent

Milestone-samstæðan tapaði 35 milljörðum á fyrri helmingi ársins

MYND/GVA

Tap móðurfélags Milestone nam 13,4 milljörðum króna, eftir skatta, á fyrstu sex mánuðum ársins 2008. Tap samstæðunnar nemur því 34,9 milljörðum króna

Eigið fé samstæðunnar í heild var 55 milljarðar. Heildareignir móðurfélags voru 134 milljarðar en heildareignir samstæðu námu 513 milljörðum. Milestone sérhæfir sig í fjárfestinum á fyrirtækjum á sviði fjármálaþjónustu.

Stærsta eign Milestone er sænska fjármálafyrirtækið Moderna en félagið er um 92% af heildareignum Milestone. Hér á landi er Askar Capital eflaust þekktasta fyrirtæki Milestone sem tapaði á tímabilinu 700 milljónum króna.

Karl Wernersson, eigandi Milestone, vildi lítið tjá sig um afkomu fyrirtækisins þegar Markaðurinn hafði samband í morgun. Hann sagði þó að sá orðrómur um að Askar Capital yrði lagt niður væri stórlega ýktur.

Karl vildi lítið tjá sig þegar fréttamaður spurði um þann fólksflótta sem orðið hefði hjá fyrirtækinu á síðastliðnum vikum en auk forstjórans sem fékk leyfi til að sinna ráðgjafastörfum hjá ríkisstjórninni hefur Markaðurinn heimildir fyrir því að a.m.k. þrír starfsmenn Askar hafi sagt upp störfum hjá fyrirtækinu í síðustu viku og farið annað. Karl segir þó að starfseminni verði ekki hætt og að hann sé tiltölulega bjartsýnn hvað varðar framtíð Milestone.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×