Viðskipti innlent

Segir Kauphöllina ekki óstarfhæfa

Þrátt fyrir gríðarlegt fall á verðmæti fyrirtækja í Kauphöll Íslands í viðskiptum upp á aðeins nokkur þúsund krónur, er hún ekki óstarfhæf, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar íslands. Hann segir að ekki komi til greina að loka henni. Úrvalsvísitalan stendur nú í 640 stigum og hefur ekki verið lægri frá árinu 1996.

Gengi bréfa í Kauphöll Íslands hafa svo sannarlega verið á ferð og flugi í vikunni. Gengi bréfa Bakkavarar féll til að mynda um 11 prósent í gær og skýra viðskipti upp á aðeins 2.338 krónur fallið. Þá féll gengi bréfa Alfesca um annað eins í fyrradag og skýrðu fjögur viðskipti upp á 5000 krónur það fall.

Þá féll gengi hlutabréfa í Eimskipafélaginu um 67 prósent sama dag og stendur gengi bréfa í félaginu í hálfri krónu á hlut og þá féll Atorka um 75 prósent í aðeins tveimur viðskiptum í gær upp á samanlagt tæplega 100 þúsund krónur. Menn velta því óneitanlega fyrir sér hvort Kauphöllin sé ekki einfaldlega óstarfhæf. Því hafnar Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.

Þá má þess geta að Atorka Group hefur farið fram á það við Kauphöllina að hlutabréf félagsins verði tekin úr viðskiptum. Félagið segir skilyrði fyrir skipulögðum verðbréfamarkaði hér naumast fyrir hendi. Eftir afskráningu verða félögin 17 talsins í Kauphöllinni.

Þórður segir að eflaust muni fleiri fyrirtæki óska eftir afskráningu. Með tíð og tíma verði þó breyting þar á. Kauphöllinni verði ekki lokað. Enn eru þó engin viðskipti með bréf Straums, SPRON og Existu að ákvörðun FME.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×