Viðskipti erlent

Segir að Lund hafi átt að fá milljarða fyrir að loka Nyhedsavisen

Leynilegt skjal er komið fram í gögnum frá Nyhedsavisen sem segir að Morten Lund og aðrir eigendur Nyhedsavisen áttu að fá milljarða króna fyrir að hætta útgáfu blaðsins.

Blaðið Jyllands Posten greinir frá þessu í dag. Þar segir að umrætt skjal sé upp á fjórar síður í formi óundirritaðs samnings um að útgáfa Nyhedsavisen skuli lögð niður. Sá sem á að hafa lagt fram tilboðið er David Montgomery eigandi Mecom Group sem m.a. gefur út Berlingske Tidende. Hann neitar því að umrætt skjal sé ekta.

Samkvæmt samningi þessum var Morten Lund og öðrum boðin greiðsla upp á 15 milljónir punda, eða hátt í þrjá milljarða kr. ef útgáfu Nyhedsavisen yrði hætt.

Samningurinn er dagsettur þann 28. ágúst s.l. eða þremur dögum áður en Morten Lund stöðvaði útgáfu Nyhedsavisen. Jyllands Posten hefur marga heimildarmenn að því að þeir Morten Lund og David Montgomery hafi hittst á klukkustundae löngum fundi þann 28. ágúst. Var fundurinn haldinn í fundarsal Nyhedsavisen við Gammel Strand í Kaupmannahöfn.

Montgomery staðfestir það í samtali við Jyllands Posten að hann hafi átt nokkra fundi með Morten Lund en hann hvað fundinn þann 28. ágúst varðar vill hann hvorki staðfesta að sá fundur hafi átt sér stað né hvað var rætt á honum.

Það var Svenn Dam fyrrum stjórnarformaður Nyhedsavisen sem fann umrætt skjal meðal pappíra sem hann fékk senda frá skriftofu sinni og hefur staðfest tilvist þess í samtali við Jyllands Posten.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×