Viðskipti innlent

Óvíst hvort starfsmenn MEST fái greidd laun

Töluverður uggur er meðal starfsmanna byggingafyrirtækisins Mest ehf eftir að Glitnir tók yfir hluta rekstursins. Óvíst er hvort starfsmenn fái greidd laun um næstu mánaðamót.

Glitnir banki tók á mánudaginn yfir þann hluta Mest sem snýr að rekstri steypustöðva og helluframleiðslu en bankinn var í hópi stærstu kröfuhafa.

Mest hefur átt í töluverðum fjárhagserfiðleikum á þessu ári og þurft að segja upp tugum starfsmanna.

Um áttatíu manns vinna nú hjá fyrirtækinu sem rekur meðal annars byggingavöruverslanir og tækjaleigu.

Boðað var til starfsmannafundar í gær með fulltrúum frá kjarasviði VR. Á fundinum kom meðal annars fram að mikil óvissa ríkir um framtíð fyrirtækisins og óvíst að starfsmenn fái greidd laun um næstu mánaðamót.

Verslunum fyrirtækisins hefur verið lokað - vegna skipulagsbreytinga - en ekki liggur fyrir hvort þær verði opnaðar á ný.

Þá hefur félagið verið skráð á nýja kennitölu undir heitinu Tæki, tól og byggingavörur ehf.

Ekki náðist í Pétur Guðmundsson, stjórnarformann fyrirtækisins, í morgun. Í samtali við fréttastofu á mánudaginn boðaði Pétur hins vegar frekari skipulagsbreytingar hjá fyrirtækinu og útilokaði ekki uppsagnir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×