Viðskipti innlent

Seðlabankinn segir ekki unnt að slaka á peningalegu aðhaldi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Rökstuðningur Seðlabanka Íslands fyrir óbreyttum stýrivöxtum, 15,5%, felst fyrst og fremst í því að gengislækkunin fyrstu þrjá mánuði ársins hafi leitt til meiri verðbólgu í apríl og gæti jafnvel orðið meiri á næstu mánuðum en Seðlabankinn spáði í apríl.

Aukinn innlendur kostnaður og áhrif minnkandi framleiðsluspennu geri það að verkum að innlend eftirspurn dragist verulega saman á næstu árum og húsnæðismarkaðurinn kólni.

Seðlabankinn segir það brýnt að skammtímaverðbólga leiði ekki til víxlbreytinga launa, verðlags og gengis. Háum stýrivöxtum og öðrum aðgerðum sé ætlað að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði sem sé forsenda þess að böndum verði komið á verðbólgu og verðbólguvæntingar. Gjaldmiðlaskiptasamningar bankans við erlenda seðlabanka hafi haft jákvæð áhrif en leysi þó ekki allan vandann.

Tekur Seðlabankinn að lokum fram að ekki verði unnt að slaka á peningalegu aðhaldi fyrr en sýnt sé að verðbólga sé á undanhaldi enda fátt mikilvægara fyrir efnahag heimila og fyrirtækja en að sú þróun hefjist og verði hnökralítil.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×