Viðskipti innlent

Verðmæti TM þriðjungur af tilboði Kaldbaks

Eignarhaldsfélagið Kaldbakur vill borga fjörutíu og tvo milljarða króna fyrir Tryggingamiðstöðina sem er þrisvar sinnum meira en virði hennar er talið vera.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur athafnakonan Guðbjörg Matthíasdóttir, fyrrum eigandi TM, einnig boðið í félagið en tilboð hennar hljóðaði upp á þrjátíu milljarða. Stoðir skulda Landsbankanum fjórutíu og tvo milljarða vegna kaupanna á TM á síðasta ári.

Bæði tilboð Kaldbaks og Guðbjargar eru langt yfir verðmæti Tryggingamiðstöðvarinnar eftir því sem fréttastofa kemst næst. Bókfært eigið fé TM var um mitt árið um 24 milljarðar. Það hefur rýrnað verulega síðan þá, bæði með verðmætarýrnun á norska tryggingafélaginu NEMI sem og með tapi á öðrum fjárfestingum eins og til að mynda Glitni.

Heimildir fréttastofu herma að eigið fé Tryggingamiðstöðvarinnar sé ekki mikið yfir tíu milljörðum í dag. Eins og staðan er í dag eru vel rekin tryggingafélög að ganga kaupum og sölum fjórutíu prósent yfir eigið fé eða um fjórtán milljarða í tilfelli TM.

En af hverju svona hátt verð fyrir félag eins og Tryggingamiðstöðina? Ein skýringin er sú að með því að bjóða nógu hátt sé hægt að komast einsamall að samningaborði með bankanum og reyna að fá stóran hluta skuldanna afskrifaðar.

Önnur skýring er sú að það sé gott að eiga rekstrarfélag með stöðugar tekjur á tímum sem þessum. Þriðja skýringin er að í bótasjóði Tryggingamiðstöðvarinnar eru um fimmtán milljarðar sem kæmu sér vel í þeirri lausafjárkrísu sem nú er uppi.

Ekki náðist í Þorstein Má Baldvinsson, stjórnarformann Kaldbaks en Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, ráðgjafi Guðbjargar Matthíasdóttir vildi ekki tjá sig um málið í dag, sagði aðeins að TM væri fyrirtæki í góðum rekstri.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×