Viðskipti innlent

Ríkið gæti orðið stærsti hluthafi Byrs

Imon, félag Magnúsar Ármanns, keypti bréf í Landsbankanum af bankanum sjálfum fyrir níu milljarða stuttu fyrir þjóðnýtingu.Tæplega átta prósenta hlutur Imons í Byr gæti verið í uppnámi vegna viðskiptanna.

Mikil dulúð hefur ríkt yfir þessum viðskiptum Magnúsar Ármanns og Landsbankans sem hljóðuðu upp á 4,05% hlut að verðmæti tæplega níu milljarða. Það var eignarhaldsfélag Magnúsar, Imon ehf, sem keypti hlutinn en það félag er einnig stærsti hluthafinn í Byr.

Heimildir fréttastofu herma að Landsbankinn hafi sjálfur selt Magnúsi bréfin og lánað honum fyrir þeim. Ekki liggur fyrir hvort Magnús hafi sett bréf Imons í Byr sem veð á móti bréfunum í Landsbankanum en ef svo er er hann sennilega búinn að tapa þeim og Nýi Landsbankinn verður á endanum stærsti hluthafi Byrs.

Ljóst er að Magnús tapar verulega á þessum viðskiptum og ekki síður Nýi Landsbankinn sem þarf að afskrifa allt að sex milljörðum eftir því sem heimildir Fréttastofu herma.

Þá herma heimildir fréttastofu að Fjármálaeftirlitið sé komið með þessi viðskipti Imons og Landsbankans inn á sitt borð til skoðunar.

Ekki náðist í Magnús Ármann við vinnslu þessarar fréttar.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×