Viðskipti innlent

Icesave í Hollandi líka lokað

Breska ríkið ætlar í mál við það íslenska vegna ákvörðunar íslenskra stjórnvalda að tryggja ekki milljarða inneignir Breta á Icesave reikningum Landsbankans í Bretlandi. Búið er að loka Icesave í Hollandi og þarlend stjórnvöld leita upplýsinga frá þeim íslensku um tryggingar.

Á blaðamannafundi í morgun þar sem Gordon Brown, forsætisráðherra Bretland, og Alistair Darling, fjármálaráðherra, greindu frá aðgerðum breska ríkissins til bjargar bresku fjármálakerfi kom fram að íslensk stjórnvöld hefðu gert þeim bresku grein fyrir því að þau ætluðu ekki að ábyrgjast inneignir breskra sparifjáreigenda í Icesave, netbanka Landsbankans í Bretlandi.

Brown sagði að höfðað yrði mál gegn íslenska ríkinu vegna þessa. Breska ríkið myndi tryggja innistæðurnar og standa með breskum sparifjáreigendum.

Um þrjú hundruð þúsund viðskiptavinir eiga fé á reikningum Icesave í Bretlandi. Í erlendum miðlum er talið er að ábyrgð íslenska ríkisins gæti numið fimm milljörðum punda.

Vefsíðu Icesave í Hollandi var lokað í morgun. Á síðunni er tilkynning frá hollenska seðlabankanum þar sem fram kemur að óljóst sé með stöðu Landsbankans á Íslandi og hollensk yfirvöld reyni nú að ná sambandi við þau íslensku vegna málsins.

Þar segir að hollenska ríkið hafi ákveðið að tryggja innistæður í hollenskum bönkum upp á hámarki hundrað þúsund evrum á einstakling í hverjum banka. Hvað Icesave varði falli tryggingin að hluta á íslenska tryggingasjóðinn en að engu leyti á þann hollenska. Hollenski seðlabankinn segist aðstoða hollenska sparifjáreigendur við að sækja fé sitt.

Talið er að um hundrað þúsund manns hafi verið með reikninga í hollenska Icesave.

Samkvæmt frétt á Sky News í morgun mun breska útibú ING Direct ætla að kaupa netbankann Edge af Kaupþingi, þ.e. tvo og hálfan milljarð punda og fimm hundruð þrjátíu og átta milljónir punda inneigna Heritable bankans sem er í eigu Landsbankans. Heritable fór í greiðslustöðvun í gær og er í meðferð hjá endurskoðunarfyrirtækinu Ernst og Young.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×