Viðskipti erlent

Þriðjungur Airbus-pantana í uppnámi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

EADS, sem framleiðir Airbus-farþegaþoturnar í Evrópu, gerir ráð fyrir því að allt að þriðjungur þeirra pantana sem flugfélögin hafa lagt inn hjá fyrirtækinu gæti endað í ruslinu vegna þeirrar úlfakreppu sem hækkandi eldsneytisverð hefur valdið flugfélögum um allan heim.

Veikur bandaríkjadalur er annar þáttur sem Airbus-verksmiðjurnar finna óþyrmilega fyrir og nú velta stjórnendur því fyrir sér að loka stórri verksmiðju í Bretlandi til að draga úr kostnaði sínum.

Nú telja pöntunarlistar Airbus 3.663 flugvélar sem eru 350 milljarða evra virði miðað við listaverð. Höfuðstöðvarnar í Toulouse í Frakklandi standa á bak við tvo þriðju af heildarframleiðslu EADS og eiga orðið við ramman reip að draga við að anna spurn eftir A380-farþegavélunum og A400M-herflutningavélunum en hlutabréf fyrirtækisins lækkuðu um 32% í maí eins og Vísir greindi frá og var Airbus SAS þegar svo var komið metið á minna en núll.

Bloomberg greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×