Viðskipti innlent

Dagsbrúnardraugurinn er dauður

Ari Edwald forstjóri 365.
Ari Edwald forstjóri 365.

Ari Edwald, forstjóri 365 hf, segir að eignarhlutur félagsins i bresku prentsmiðjunni Wyndeham, orsaki það tap sem var á rekstrinum árið 2007. Í samtali við Sindra Sindrason í hádegisviðtalinu á Stöð 2 sagði Ari að það hefði verið Dagsbrún, forveri 365, sem keypti Wyndeham á vormánuðum 2006. Nú væri hins vegar búið að afskrifa prentsmiðjuna að fullu. Aðspurður hvort Dagsbrúnardraugurinn væri dauður sagði Ari að eina eign 365 sem tengdist ekki starfsemi félagsins beint væri lágt skrifaður hlutur í Dagsbrun Media Fond og játaði því að þar með væri Dagsbrúnardraugurinn dauður.

Ársreikningur 365 fyrir árið 2007 var birtur í gær og sýndi hann tap upp á rúma 2,2 milljarða króna. Ari segir þó að reksturinn væri kominn í mjög gott horf og ársreikningurinn væri í kringum 50 milljónir í mínus ef afskriftir á  virði eignahluta væru teknar út.

Ari segir að rekstur fjölmiðlahlutans gangi vel og það hafi sýnt sig að það hefði borgað sig að fækka miðlum. Þeir miðlar sem nú stæðu eftir yrðu hins vegar styrktir.

Loks sagði Ari að ekki stæði til að sameina Stöð 2 og Skjá einn. Sameining hafi komið til tals fyrir einhverjum misserum. Hún væri hins vegar ekki til umræðu núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×