Viðskipti innlent

Samkeppnisyfirvöld samþykkja kaup Marel á Stork

Árni Oddur Þórðarson er stjórnarformaður Marels.
Árni Oddur Þórðarson er stjórnarformaður Marels.

Evrópsk samkeppnisyfirvöld hafa samþykkt kaup Marel Food Systems á Stork Food Systems án athugasemdar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var Kauphöll Íslands í dag.

Þann 28. nóvember síðastliðinn tilkynnti Marel að félagið hefði náð samkomulagi við Stork N.V. um kaup á Stork Food Systems. Kaupverðið var 415 milljónir evra eða um 50 milljarðar íslenskra króna.

Kaupin voru gerð með fyrirvara um að yfirtökutilboð London Acquisition N.V. um kaup á öllum hlutum í Stork N.V. yrði skilyrðislaus, umsögn Stork Works Council og samþykki evrópskra samkeppnisyfirvalda

„Evrópsk samkeppnisyfirvöld hafa nú samþykkt án athugasemda kaup Marel Food Systems hf. á Stork Food Systems. Yfirtökutilboð London Acquisition N.V. um kaup á öllum hlutum í Stork N.V. var lýst skilyrðislaust þann 17. janúar 2008. Einnig hafa kaupin fengið jákvæða umsögn Stork Works Council. Með þessum niðurstöðum hefur öllum fyrirvörum í kaupsamningi Marel Food Systems hf. og Stork N.V. verið aflétt.

Marel Food Systems hf. hefur fjármagnað kaupverðið að fullu með lánsfé og útgáfu nýrra hluta, sölutryggðum af Landsbanka Íslands hf., með stuðningi frá stærstu hluthöfum félagsins. Stefnt er að útboði á nýjum hlutum í Marel Food Systems hf. til forgangsréttarhafa á öðrum ársfjórðungi 2008," segir í tilkynningu Marel til Kauphallarinnar.

Samanlögð velta þeirra Marel og Stork er 660 milljónir evra, eða 98 milljarðar króna, og starfsmenn samstæðunnar eru yfir fjögur þúsund,

eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×