Viðskipti erlent

Tveggja milljarða viðbótarútgáfa krónubréfa hjá KfW

MYND/365

Þýski þróunarbankinn KfW, sem er næststærsti krónubréfaútgefandinn til þessa, tilkynnti í gær um 2 milljarða króna viðbótarútgáfu í flokk krónubréfa sem er á gjalddaga 15. júlí 2010, segir í tilkynningu frá Greiningu Glitnis.

Bréfin bera 9,5 prósenta vexti en athygli vekur að bréfin voru seld á yfirverði og er ávöxtunarkrafan því talsvert lægri, eða nálægt 7 prósentum. Til samanburðar er ávöxtunarkrafa á ríkisbréfaflokknum RIKB 10 0317, sem hefur lítið eitt styttri líftíma en ofangreint krónubréf, nú 13,35 prósent og því er ljóst að kaupendur útgáfunnar nú fá verulega lægri vexti fyrir sinn snúð en hægt er að nálgast á Íslandi.

Að útgáfunni í gær meðtalinni telur krónubréfaflokkurinn nú 7 milljarða króna. Útgáfa mánaðarins nemur nú alls 15 milljörðum en í heild hafa 27,5 milljarðar fallið á gjalddaga í mánuðinum. Heildarútistandandi krónubréf nema nú um 306 milljörðum. Næsti krónubréfagjalddagi er 6. október næstkomandi en þá fellur á gjalddaga 29 milljarða króna útgáfa Evrópska fjárfestingarbankans. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×