Erlent

Kosningar í Simbabve uppfylltu ekki kröfur Afríkubandalagsins

Forsetakosningarnar í Simbabve uppfylltu ekki kröfur Afríkubandalagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eftirlitsmönnum sem voru viðstaddir kosningarnar á vegum bandalagsins.

Þrír hópar Afríkuríkja fylgdust með kosningunum og hafa þeir allir fellt þann dóm að kosningarnar hafi verið ólýðræðislegar. Eins og kunnugt er var hinn aldraði forseti Robert Mugabe einn í kjöri og hlaut yfir 80 prósent atkvæða.

Hann var svarinn í embætti í gær og í dag hélt hann á fund Afríkubandalagsins í Egyptalandi. Þar er búist við því að þrýst verði á hann að leita samninga við stjórnarandstöðuna um að deila völdum í Simbabve.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Morgan Tsvangirai, dró framboð sitt til forseta til baka í síðustu viku eftir að menn hliðhollir Mugabe höfðu myrt hátt í hundrað stuðningsmenn hans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×