Viðskipti erlent

Kínverskum bönkum skipað að stöðva lán til bandarískra banka

Bankaeftirlit Kína hefur skipað þarlendum bönkum að stöðva öll millibankalán til bandarískra banka. Þetta á að koma í veg fyrir hugsanlegt tap meðan á fjármálakreppunni stendur.

Blaðið South China Morning Post í Hong Kong greinir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir ónafngreindum heimildarmönnum að kínversku bönkunum hafi verið skipað að hætta að lána bandarískum bönkum en ekki bönkum í öðrum löndum.

Að sögn blaðsins virðast þessar aðgerðir vera þær fyrstu af hálfu Kínverja til að verja sig gegn vaxandi fjármálakreppu í Bandaríkjunum. Áður hafði komið fram að kínverskir bankar lágu með fleiri milljarða dollara í lánum á Bandaríkjamarkaði er kreppan fór í gang.

Forráðamenn bankaeftilitsins hafa borið þessa frétt til baka í dag og segja að engin skipun hafi verið gefin út um að hætta lánum til bandarískra banka.

Í framhaldsfrétt á Reuter um málið kemur þetta fram en hinsvegar hefur Reuter eftir þremur verðbréfasölum í Sjanghai að Kínverjar séu hættir að lána sumum bandarískum bönkum og að þeir fari sé varlega í að lána bönkum í öðrum löndum.

Einn þeirra sem Reuter ræddi við segir að frá því í upphafi vikunnar hafi orðið stöðugt erfiðara að fá lán í kínverskum bönkum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×