Viðskipti innlent

Straumur keypti 12 milljónir evra af Samson

William Fall forstjóri Straums
William Fall forstjóri Straums

Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í morgun, undir fyrirsögninni „Færðu milljarða fyrir greiðslustöðvun", er því haldið fram að Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. hafi greitt Samson eignarhaldsfélagi ehf. („Samson") umtalsverða fjármuni þann 7. október síðastliðinn, sama dag og Samson fékk greiðslustöðvun. Straumur tjáir sig að öllu jöfnu ekki um málefni einstakra viðskiptavina en telur þó að forsíðufrétt Fréttablaðsins gefi tilefni til að upplýsa hið rétta í málinu.

Staðreynd málsins er þessi: Þann 6. október síðastliðinn keypti Straumur 12 milljónir evra af Samson, sem voru hluti af reiðufjárinnistæðu félagsins hjá Straumi, fyrir tæpa tvo milljarða króna. Um var að ræða eðlileg gjaldeyriskaup af hálfu Straums sem ákveðin voru á viðskiptalegum forsendum.

Þegar Samson eignarhaldsfélag ehf. óskaði eftir greiðslustöðvun gjaldfelldi Straumur án tafar lán til félagsins með höfuðstólsfjárhæð 4,7 milljarða króna. Í framhaldi af því lýsti Straumur yfir skuldajöfnuði á eftirstandandi reiðufjárinnistæðu félagsins hjá Straumi að upphæð 19 milljónir evra, eða 2,5 milljarða króna, til lækkunar á áðurnefndu láni.

Sjálfsagt er að fram komi að aðstoðarmaður Samson eignarhaldsfélags ehf. í greiðslustöðvun hefur, fyrir hönd félagsins, gert fyrirvara við réttmæti skuldajöfnunarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Straumi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×