Viðskipti innlent

Fjármálaráðuneyti Póllands staðfestir lán

Pólska fjármálaráðuneytið segir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni að þarlend yfirvöld muni lána Íslendingum 200 milljónir dollara. Vitnað er til yfirlýsingarinnar í virtum erlendum fréttamiðlum, þar á meðal hjá AFP-fréttaveitunni og Reuters.

Þá hefur Bloomberg-fréttaveitan uppfært frétt sína af málinu frá í morgun þar sem lánið er staðfest með símtali við talskonu ráðuneytisins.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði hins vegar við fréttamenn í morgun að hann vissi ekki til þess að Pólverjar ætluðu að lán Íslendingum fyrrgreinda upphæð.

„Pólland hefur ákveðið að ganga til liðs við hóp þjóða sem munu bjóða Íslandi fjárhagslegan stuðning," segir í fyrrgreindri yfirlýsingu. Samkvæmt frétt AFP kemur einnig fram að um 200 milljónir dollara sé að ræða og að skilmálar lánsins verði ákveðnir í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Norrænu ríkin, Hollendingar og Bretar eru sagðir vera í hópi þeirra ríkja sem leggja munu Íslendingum lið að viðbættir aðstoð sjóðsins.

Í uppfærðri frétt á Bloomberg-fréttaveitunni kemur fram að þeim hafi fyrst borist upplýsingar frá pólskum stjórnvöldum með tölvupósti en síðar hafi Magdalene Kobos, talskona pólska fjármálaráðuneytisins, staðfest þessar upplýsingar í símtali.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×