Viðskipti erlent

Enn falla húsnæðislánasjóðirnir

Höfuðstöðvar Fannie Mae í Bandaríkjunum, sem sérfræðingar segja glíma við mikinn fjárhagsvanda.
Höfuðstöðvar Fannie Mae í Bandaríkjunum, sem sérfræðingar segja glíma við mikinn fjárhagsvanda. Mynd/AFP
Gengi hlutabréfa í bandarísku húsnæðislánasjóðunum Fannie Mae og Freddy Mac féll á ný í dag þrátt fyrir að bandaríska ríkið hafi ákveðið að grípa til björgunaraðgerða til að forða fyrirtækjunum frá þroti.

Fannie Mae hefur nú fallið um tæp 24 prósent og Freddy Mac um 28 prósent. Fjármálasérfræðingar vestanhafs efast enn um fjárhagslega burði fyrirtækjanna og telja líkur á að bandaríkjastjórn verði að gera betur.

Fall fyrirtækjanna hefur dregið bandarískan hlutabréfamarkað niður með sér. Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur lækkað um 1,49 prósent og er hún nú komin undir ellefu þúsund stigin. Það hefur ekki gerst síðan fyrir sléttum tveimur árum. Þá hefur Nasdaq-vísitalan lækkað um 1,3 prósent.

Þróunin á bandarískum hlutabréfamarkaði hefur smitað út frá sér til hlutabréfamarkaða í Evrópu. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,11 prósent og stendur hún í 4.141 stigi. Hún hefur ekki verið jafn lág í rúm þrjú ár.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×