Viðskipti innlent

Frost í hagkerfinu má ekki verða of mikið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Davíð Oddsson Við kynningu á nýju samkomulagi Seðlabanka Íslands við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um gjaldmiðlaskipti í gærmorgun.
Davíð Oddsson Við kynningu á nýju samkomulagi Seðlabanka Íslands við seðlabanka Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar um gjaldmiðlaskipti í gærmorgun. Fréttablaðið/Vilhelm
Með aðgerðum Seðlabanka Íslands í gær batna forsendur til að verðbólguskotið, sem nú stendur yfir, gangi yfir með eðlilegum hætti, að mati Ólafs Ísleifssonar, lektors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

„Hins vegar er ekki annað að sjá en hagkerfið hafi kólnað mjög og verkefnið fram undan kannski ekki einungis að gæta að verðbólgu, heldur að því að hagkerfið kólni ekki um of,“ bætir hann við og bendir á að teikn séu um að margt sé þegar tekið að frjósa fast.

Helsta vandamál krónunnar um þessar mundir er skertur vaxtamunur á gjaldmiðlaskiptamarkaði, segir greiningardeild Kaupþings. Vandinn kemur meðal annars fram í að kaup á krónum í framvirkum samningum bera enga vexti og gera hana að lakari fjárfestingarkosti.

Greiningardeildin bendir á að kjör á gjaldmiðlaskiptamarkaði hafi ekki batnað í kjölfar kynningar á gjaldeyrisskiptasamkomulagi Seðlabanka Íslands við seðlabanka Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs í gær.

„Enda hafa aðgerðirnar ekki bein áhrif á aðgengi bankanna að gjaldeyri,“ segir í skrifum greiningardeildarinnar. Helsta forsenda þess að gjaldmiðlaskiptamarkaðurinn komist í betra horf er sögð vera að aðgangur bankanna að erlendum gjaldeyri batni.

„Samningarnir sem Seðlabankinn kynnti í gær hafa að meginmarkmiði að gefa Seðlabankanum færi á að lána bönkunum laust fé í erlendri mynt ef aðra kosti þrýtur og að því leytinu til skapar þetta aukið traust á fjármálakerfinu. En þetta er verkefni á sviði fjármálastöðugleika, ekki allsherjarinnlegg við lausn efnahagsvanda,“ segir Ólafur Ísleifsson og bætir við að hér hafi ríkisvaldið horft upp á mikinn uppgang bankakerfisins og með glöðu geði tekið við tugum milljarða skatttekna úr því í ríkissjóð án þess þó að hreyfa legg eða lið til að bæta starfsumhverfi atvinnugreinarinnar.

„Aðgerð Seðlabankans nú er því mjög jákvæð og menn hljóta að mega vænta þess í ljósi yfirlýsinga bankans og forsætisráðherra að sambærilegir samningar við Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka líti dagsins ljós,“ segir hann, og í sama streng tekur greiningardeild Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×