Viðskipti innlent

Umfangsmestu fjöldauppsagnir í sögu íslenska bankakerfisins

Uppsagnir Glitnis á 88 starfsmönnum í dag eru umfangsmestu fjöldauppsagnir í sögu íslenska bankakerfisins. Þetta segir Friðbert Traustason, formaður Félags íslenskra bankastarfsmanna.

Næst umfangsmestu uppsagnirnar voru árið 1994 þegar Landsbankinn sagði upp 64 starfsmönnum.

Friðbert segir að á vissan hátt sé það skiljanlegt að Glitnir segi upp mikið af starfsfólki nú enda hafi bankinn ráðið hlutfallslega mest allra íslensku bankanna af fólki á síðasta ári. Bankinn hafi gert ráð fyrir því að stækka mikið á þessu ári en það hafi ekki gengið eftir.

"Þetta kemur sér hræðilega illa fyrir þá sem sagt var upp. Sérstaklega þá sem hafa unnið lengi hjá bankanum," segir Friðbert. Hann segist hins vegar eiga von á því að flestir muni eiga auðvelt með að finna vinnu.

"Smærri fyrirtæki sækjast mikið eftir því að fá fólk sem unnið hefur hjá bönkunum. Þeim sem nú var sagt fá þrjá til sex mánuði í uppsagnarfrest sem þeir þurfa ekki að vinna. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×