Viðskipti innlent

Útsvar hækkar í Bretlandi vegna hruns íslensku bankanna

Gordon Brown forsætisráðherra Breta.
Gordon Brown forsætisráðherra Breta.

Útlit er fyrir að útsvar í Bretlandi hækki um fimm prósent eftir næstu sveitastjórnarkosningar þar vegna bankahrunsins á Íslandi.

Breska dagblaðið Daily Mail fjallar um málið í morgun. Þar segir að hækkun sé óumflýjanleg vegna nærri eins milljarðs punda sem sveitarfélög hafi átt inn í íslenskum bönkum í Bretlandi sem nú hafi hrunið. Í gær tilkynnti Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, að ákveðið hefði verið að leyfa sveitastjórnum að sleppa því að bókfæra tapið þetta árið. Það þýðir að sveitastjórnir í Bretlandi þurfa ekki að velta því á íbúa í sveitarfélögunum með því að hækka útsvarið sitt.

Blaðið segir þetta aðeins fresta hækkuninni fram á vorið 2010 en þá sé líklegt að búið verði að kjósa til þings og sveitarfélaga í Bretlandi. Íhaldsmenn segja þetta svindl, sprengjan springi bara eftir að Verkamannaflokkur Browns hafi farið í gegnum næstu kosningar.

Fram kemur í Daily Mail að sveitarfélög hafi tapað fé sem nemi um fimm prósentum af árlegum útsvarstekjum þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×