Viðskipti innlent

Íslendingar fjárfesta í dönsku framleiðslufyrirtæki

Ólafur Örn Karlsson og Gunnar Björn Hinz hafa fest kaup á Toraco Finmekanik, dönsku fyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á málmhlutum. VBS fjárfestingarbanki hf. hafði milligöngu um kaupin á fyrirtækinu og sá um samninga við Danske Bank sem fjármagnaði kaupin. Kaupverð er trúnaðarmál. Þetta kemur fram í tilkynningu frá VBS fjárfestingarbanka.

„Toraco er vel rekið fjölskyldufyrirtæki, með góðum viðskiptamannahópi og við teljum mikil tækifæri felast í þessum kaupum. Samhliða því að sinna áfram þeim viðskiptamannahópi sem fyrir er, munum við einbeita okkur að nýjum markaðssvæðum og sinna uppbyggingu á vélaflota fyrirtækisins til að mæta aukinni eftirspurn. Í framtíðinni stefnum við á að þróa í auknum mæli framleiðslu hluta fyrir lækningatæki og smíði sérhluta fyrir bæklunarlækningar," segir Gunnar Björn Hinz, framkvæmdastjóri félagsins, í tilkynningu VBS.

Toraco Finmekanik á rætur að rekja til ársins 1956 og hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjöskyldunnar. Helstu viðskiptavinir fyrirtækisins eru vélaframleiðendur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi. Framleiðsla er að mestu leyti miðuð við sérhæfða þjónustu og framleiðslu á fíngerðum og flóknum málmhlutum fyrir viðskiptavini sem framleiða til að mynda tannlæknastóla, öndunarvélar, gasloka og ýmis konar vökvakerfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×