Erlent

Sendiherra Rússa vill að Íslendingar viðurkenni sjálfstæði S-Ossetíu og Abkasíu

Sendiherra Rússlands á Íslandi, Viktor Tatarintsev, fór fram á það í dag að íslensk stjórnvöld viðurkenndu Suður-Ossetíu og Abkasíu sem sjálfstæð ríki. Hann viðurkennir sjálfur að ekki sé líklegt að þau verði við þeirri bón.

Nú síðdegis fór Tatarintsev á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra til að biðja Íslendinga að styðja Rússa í málinu. Ekki líklegt, viðurkennir hann sjálfur, og utanríkisráðherra er sammála því. Hún segir jafnframt það ekki hafa verið mjög skynsamlegt hjá Rússum að viðurkenna sjálfstæði ríkjanna tveggja.

Á blaðamannafundi í dag sagðist sendiherrann ekki trúa því að til átaka kæmi, þrátt fyrir spennuna í Georgíu. Í viðtali við Stöð tvö staðfesti hann að rússneskt herskip væri á ferð í Svartahafi nálægt Georgíu - þar sem bandarísk herskip hlaðin hjálpargögnum eru líka. Sendiherrann fullyrti þó að skipun væri þarna eingöngu til að tryggja öryggið en ekki til að storka því.

Sendiherrann tók einnig sérstaklega fram að Rússar væru ekki bara andvígir aðild Georgíu að NATO heldur Úkraínu líka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×