Viðskipti erlent

Segir norræna banka geta bjargað þeim íslensku

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Bankar á Norðurlöndunum geta bjargað íslensku bönkunum ef þeir vilja segir Erik Alsaker hjá greiningardeild Nordea-bankans í viðtali við norska ríkisútvarpið.

Alsaker segir að nóg sé til af peningum í bönkum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og að þessi þrjú stóru lönd ættu ekki að eiga í neinum vandræðum með að rétta íslenskum bönkum hjálparhönd þegar illa árar. Norska ríkisútvarpið vitnar einnig í Ingólf Bender, forstöðumann greiningardeildar Glitnis, sem segir að seðlabankar Norðurlandanna séu bundnir samningum um innbyrðis aðstoð og hrun Glitnis muni þannig hafa áhrif í Noregi.

Útvarpið segir frá kaupum ríkisins á Glitni á mánudag og lækkun matsfyrirtækisins Fitch á lánshæfi íslensku bankanna í gær. Enn fremur segir það hruni íslenskra banka hafa verið spáð lengi, viðskiptabankar Íslands séu orðnir það stórir að Seðlabankinn hér geti lent í vandræðum þurfi að koma þeim til bjargar. Þá segir Alsaker að í tilfelli Noregs sé þetta ekki bara spurning um að bjarga litlum bróður sem hefur eytt um efni fram, Ísland standi Noregi nær en hin löndin og því standi það Norðmönnum nær að rétta hjálparhönd.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×