Viðskipti innlent

Kreditkortavelta erlendis minnkar um helming frá í fyrra

Tölur Seðlabankans sýna að kreditkortavelta erlendis í október var að raunvirði aðeins ríflega helmingur veltunnar á sama tíma í fyrra.

Verulegur samdráttur varð einnig í kortaveltu innanlands í síðasta mánuði. Dróst innlend kreditkortavelta saman um 11% að raungildi á milli ára en innlend debetkortavelta í verslunum saman um 19% á sama kvarða.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að íslenskir neytendur eru nú teknir að herða beltin svo um munar, og sér í lagi hefur neysla landsmanna á erlendri grund og kaup á varanlegum neysluvörum hrunið ef marka má nýjustu tölur Seðlabankans um kortaveltu og tölur Rannsóknaseturs verslunarinnar um veltu í smásöluverslun.

Hér verður þó að hafa í huga að líklegt er að heimilin hafi haft óvenjumikið reiðufé milli handa í mánuðinum. Mikið var um úttektir af óbundnum bankareikningum á fyrri hluta síðasta mánaðar þegar óvissan um framtíð bankakerfisins var hvað mest.

Þetta endurspeglast í debetkortanotkun í bönkum, sem var með því mesta sem sést hefur. Væntanlega hafa heimilin kosið að nota hluta þessa reiðufjár til innkaupa fremur en leggja sjóð sinn allan inn á banka aftur eftir að línur fóru að skýrast varðandi framtíð viðskiptabankanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×