Viðskipti innlent

Exista áfram með 19,98% hlut í Sampo

Sampo sendi í dag flöggunartilkynningu til kauphallarinnar í Helsinki þess efnis að Exista hf. fari áfram með A-hluti í Sampo sem nemur 19,98% af heildarhlutafé í félaginu að teknu tilliti til samþykktrar niðurfellingar á hlutum í Sampo.

Þetta er í samræmi við umfjöllun um hugsanlega niðurfellingu á hlutum í Sampo í tilkynningu Exista um afkomu fyrsta ársfjórðungs 2008 frá 29. apríl sl.

Fram kom í tilkynningu frá Sampo þann 7. maí síðastliðinn að stjórn félagsins hefði samþykkt að fella niður eigin hluti í A flokki um 6.715.000 hluti og auka þannig hlutfallslega eign núverandi hluthafa. Exista hefur heimild finnska tryggingaeftirlitsins til þess að fara með allt að 20% hlutafjár í Sampo.

Exista hefur því selt 1.350.000 hluti og lokað afleiðusamningi í þeim tilgangi að halda hlutfallslegri eign félagsins í Sampo í 19,98% af heildarhlutafé eins og fyrir niðurfellingu hlutafjár.

Sampo á og stýrir vátryggingafélaginu If, sem er leiðandi skaðatryggingafélag á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, og Sampo Life, sem starfar á sviði líftrygginga og lífeyrissparnaðar, einkum í Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Árlegar iðgjaldatekjur félagsins nema um 4,5 milljörðum evra eða um 540 milljörðum króna.

Lýður Guðmundsson á sæti í stjórn Sampo í krafti eignarhlutarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×