Viðskipti erlent

New York ríki hefur rannsókn á skortsölu

Andrew Cuomo dómsmálaráðherra New York ríkis hefur sett af stað rannsókn á því hvort verðbréfasalar hafi notað ólöglegar aðferðir við að keyra niður verð á hlutabréfum í nokkrum félögum á Wall Street með skortsöslu.

Ráðuneyti hans hafi borist margar kvartanir um skortsölu, það er þegar verðbréfasalar veðja á að hlutabréf falli í verði.

Skortsala hefur ekki verið ólögleg en Cuomo segir að rannsókn hans muni beinast að því hvort skortsalar hafi gert með sér samsæri með því að dreifa orðrómi eða röngum upplýsingum og keyra þannig niður hlutabréf í Lehman Brothers, AIG, Goldman Sachs og Morgan Stanley.

„Ég vil að skortsalar viti að ég fylgist með þeim," segir Cuomo. „Ef þeir hafa farið að lögum hafa þeir ekkert að óttast. Hinsvegar er það ólöglegt að dreifa röngum upplýsingum og rógi til að keyra félag í þrot."

Skortsala í stuttu máli er þegar verðbréfasali fær hlutabréf að láni sem hann telur að muni lækka í verði. Hann selur svo bréfin strax og kaupir þau síðan aftur þegar þau hafa lækkað til að borga lánið. Mismuninn fær hann í eigin vasa. Ef bréfin hinsvegar hækka tapar verðbréfasalinn á þessu dæmi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×