Innlent

Moskvufundir hafa gengið vel - Viðræðum verður haldið áfram

Sendinefndin frá Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneytinu sem heimsótti Moskvu til að hefja viðræður við fulltrúa fjármálaráðuneytis Rússlands um mögulega lánveitingu til Íslands segir að fyrstu fundir hafi gengið vel. Fundum verður haldið áfram. Láninu er ætlað að bæta erlenda lausafjárstöðu Íslands.

„Dimitry Pankin, aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, fór fyrir rússnesku samninganefndinni og Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri alþjóða- og markaðssviðs Seðlabanka Íslands fyrir þeirri íslensku," segir í tilkynningu frá bankanum.

„Á fundinum í Moskvu var skipst á upplýsingum, farið yfir núverandi stöðu á fjármálamörkuðum og staða Íslands rædd sérstaklega. Aðilarnir ákváðu að halda viðræðunum áfram," segir einnig.

„Fundirnir voru mjög vinsamlegir og við höfum fræðst mikið um stöðu Íslands, bankakerfi landsins og íslenska hagkerfið," segir Dimitry Pankin. „Við munum fara ofan í saumana á málunum áður en við tökum lokaákvörðun."

Sturla Pálsson tók í svipaðan streng: „Við erum ánægð með framgang mála og þakklát fyrir hversu fljótt hinir rússnesku viðsemjendur féllust á að hitta okkur og ræða um hið mögulega lán. Við kynntum fyrir þeim Ísland sem fjárfestingarkost þar sem við teljum sem fyrr að undirstöður íslenska efnahagskerfisins séu traustar og að við munum standa af okkur þann storm sem nú geisar á fjármálamörkuðum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×